Sunday, December 02, 2007

Hundlatur bloggari

Ég er ekki búin að vera duglegur að blogga. Ég fraus í skrifum einu sinni, og náði mér ekkert á skrið aftur.

Júlí:
Fimm daga gönguferð um hornstrandir.

Ágúst:
Í byrjun ágúst flaug ég til San Diego með vinnufélögum mínum til að sækja SIGGRAPH ráðstefnuna. SIGGRAPH er ráðstefna tileinkuð þrívíddar grafík sem nerðir eins og ég hafa endalaust gaman af. Fyrir utan ráðstefnuna var mætt á nokkrar frekar flottar veislur í boði Autodesk, Softimage og Natural Motion.

Autodesk veislan var haldin á flugmóðurskipinu USS Midway, sem er núna bara safngripur í höfninni í San Diego. Þessi veisla var vel troðin af nörðum og fullum stærðfræðingum, sem flest allir voru fastir upp á dekki með orustuþotum og 4 opnum börum. Okkur var ekki hleypt niður í veislusalinn fyrr en eftir rúman 1 1/2 tíma og þá voru flestar veitingar búnar, en ekki öll skemmtun dauð þar sem hægt var að prófa flughermi og horfa á hálfnakktar dansmeyjar dansa við háværa house tónlist.

Softimage veislan var haldin í House Of Blues og tók það okkur 2 tíma í biðröð til að komast þar inn. Við t.d tókum eftir því að honum Jim Blinn var stungið fram fyrir okkur inn á skemmtistaðinn, sem maður átti alls ekki von á, þar sem hann er háaldraður tölvunarfræðingur.
þessi veisla var ekki eins öflug og sú sem var á flugmóðurskipinu, en maður gat þó látið dáleiða sig af sömu hálfnökktu stelpunum við háværa house tónlist.

September, Október, Nóvember:
Vinna eins og brjálaður fyrir CCP, þar sem nýja viðbótin er að koma út núna fimmta desember.

Ég hef verið að æfa með rokk bandinu mínu þegar tími gefst og erum við að fara að henda einhverjum demóum á netið von bráðar.

Nú er maður að vona að maður geti farið að lifa eðlilegu lífi aftur þar sem þessi vinnutörn er að fara að taka enda.



Powered by ScribeFire.

Tuesday, July 17, 2007

Eistnaflug

Ég fór á Neskaupsstað um síðustu helgi til að sjá vini mína spila á þessum glæsilegu tónleikum sem ganga undir nafninu eistnaflug. Það voru um 24 tímar í bíl þessa helgi, um 8 tímar af suddalegu rokki.

Ég gisti fyrstu nóttina í tjaldi, sem var frekar kalt þar sem hitinn var um fjögur stig og hellings rigning. Seinni nóttina gisti ég á Hóteli þar sem ég ætlaði nú ekki að láta kuldan, fullu rokkarana og rigninguna halda fyrir mér vöku langt fram eftir nóttu.

Núna þegar komið er heim er ég kominn með helvítis flensu og er fastur heima fyrir. Ég er ekki sá eini sem fékk flensu úr þessarri ferð, það eru að minnsta kosti 12 rokkarar sem ég veit af sem eru fastir heima.

Mér fannst Momentum, Mammút, Hostile og Concrete standa út úr á þessum tónleikum.

Vonum að helvítis flensan drepist sem first.

Metall!!!


Powered by ScribeFire.

Tuesday, July 10, 2007


Ég fékk nýja gítarinn minn í dag. Þetta er Ibanez Prestige RG2228, er með 8 strengi og stilltur í E, A, D, G, C, F, A, D.
Fólk á eftir að missa saur þegar þetta verður keyrt í gegnum magnarann minn með þungu distortion trukki. Nú er ég með 6 gítara hérna heima hjá mér, 2 kassagítara, Jackson Randy Rhodes, Ibanez RG, Ibanez Universe 7 strengja og nú Ibanez Prestige 8 strengja.

Gæti það verið að ég væri einhverskonar gítar nörður.

Metall

Sunday, July 08, 2007

Rubiks Cube

Í frítímanum mínum fór ég að leika mér með Rubik's cube og sjá hversu erfitt það sé í rauninni að leysa slíka þraut. Það var í rauninni ekki erfitt, bara að læra á nokkrar formúlur og kunna örlítið fyrir sér til að koma kubbnum í það ástand sem hann þarf að vera til að formúlurnar virki. Ég meira að segja prófaði að taka tíman á mér hversu lengi ég væri nú að leysa þetta og tók það mig ekki meira en 2 1/2 mínútu.

Já, ég hef nægan frítíma til að leika mér. Ef ég er ekki að spila á gítarinn, þá er ég að æfa með hljómsveitinni minni, ef það er ekki í gangi þá er maður yfirleitt að leysa einhverjar þrautir, spila á trommurnar eða teikna.

En nú var verið að kveikja undir mér með það að fara að spila fótbolta, sem er alls ekki slæm hugmynd.

Já, maður verður að reyna að halda sér uppteknum.


Powered by ScribeFire.

Monday, July 02, 2007

Dautt Rock.

Ég skellti mér á tónleika á sunnudaginn og sá rokkarana í Cannibal Corpse. En ég fór ekki á þessa tónleika til að sjá það band, heldur félaga mína í Momentum og stóðu þeir sig bara með príði. Mér fannst hins vegar tónleikar Cannibal Corpse verða dálítið þreitandi, þar sem flest lögin eru of keimlík. Það besta sem ég hef heyrt með þeim mönnum er þetta, en það eru líka til skemmtilegar útfærslur af þeirra lögum sem flestir geta haft gaman af.

Það dauðarokk sem ég hlusta á er allt tæknilegt og mundi ég ekki kvarta ef þeir mundu sleppa því yfir höfuð að syngja.

Það að spila tónlistina mjög hratt gerir hana oft of klunnalega og dregur oft úr henni allan kraft.

Tónlist sem ég er mjög hrifin af þessa stundina er Tool, S.Y.L, Miles Davis, Necrophagist og Meshuggah.

Tool eru með mjög grípandi og heilsteipt lög, skemmtilegan söngvara og áhugaverða texta.
S.Y.L eru með mjög tilraunakenda tónlist sem er sett saman af brjálæðingnum honum Devin Townsend sem er einn ótrúlegasti söngvari sem ég veit um.
Miles Davis hefur búið til mikið af þægilegri jazz tónlist, og er Blue in Green í sérstöku uppáhaldi hjá mér.
Necrophagist og Meshuggah eru bönd sem eru saman sett af ótrúlega færum hljóðfæraleikurum sem leika sér mikið með polyrithma og flóknar samsetningar.

Það er mikið til af góðri tónlist og hún finnst ekki öll á sama staðnum. Lítið í kring um ykkur og reynið að finna eitthvað ykkur við hæfi í stað þess að láta mata ykkur.

LastFM gæti komið ykkur á sporið!!!


Jazz




Powered by ScribeFire.

Saturday, June 30, 2007

Einn bjór takk

Fyrir rúmu ári síðan, tók ég upp á því að hætta að drekka. Mér þótti það ekkert gaman, að verða fullur, leiðinlegur og síðar meir þunnur. En í gær bað ég barþjóninn á Dillon um einn bjór, sem síðan varð að tveimur eftir rúma klukkustund. Allt í allt, drakk ég eitthvað um 2 1/5 af stórum íslenskum bjór í gær. Ég er ekkert þunnur þar sem vökvanum var dreift á magan yfir góðar 3 stundir, en það er kominn langur tími síðan ég svaf til hádegis.
Það kemur auðvitað alltaf eitthvað upp á þegar menn eru að drekka, og í þetta skiptið þurftum við félagarnir að standa vörð fyrir einhverja íslenska stelpu sem var að hlaupa frá íslenskum/latínó strák. Stelpan virtist mjög hrædd og gaurinn mjög ákveðinn, en það var eitthvað furðulegt við það að hlaupa á eftir stelpunni niður hverfisgötuna sem gaurinn síðan virtist lítið þekkja þegar við fældum hann frá.
Kannski var hann einn af þeim sem heldur að NEI þýði, I LIKE IT ROUGH. Einum félaga mínum fannst hann vera sú týpa og langaði að breyta brúnu latínó yfirferðinni yfir í bláan/gulan/rauðan keim til að gera íslensku samfélagi smá greiða. En við vitum ekki aðdraganda af þessarri vitleysu, þannig það er best að vera ekki að taka þátt í slíku að breyta útliti mannsins til muna.

Jæja, þessi bjór smökkun var ekkert svo slæm. Kanski er hægt að gera þetta í einhverju hófi, eins og annan hvern mánuð að smakka öl og elta stelpur. Hina dagana þurfa stelpurnar bara að lifa við það að ég er ekki í glasi.

METALL


Powered by ScribeFire.

Friday, June 29, 2007

Tannlæknar eru djöfullinn.

Ekki hefur mér nokkurn tíman fundist það gaman að fara til tannlæknis, og sérstaklega ekki þegar þetta virðist vera eitthvað cosmetic skraut. Ég fékk þessa leiðinlegu holu sem ég varð að láta laga, þurfti að rótarfylla og búa til krónu, og var það ekki tilbúið fyrr en eftir einhverja 6 mánuði af borun mátun, klikkun og klúðri. Þegar það koma að því að líma krónuna á þá klúðraðist aðgerðin örlítið. En hún fór á og virkaði, ég gat tuggið mat og fann ekki fyrir neinum óþægindum. Þar sem tannsa fannst þetta frekar klúðurslegt vildi hann fá annað tækifæri til að laga þetta, og ég í sakleysi mínu jammaði bara og leyfði tannsa að ráðast á tönnina aftur.

En djöfull sé ég eftir því núna, það vantar krónuna á tönninna og ég sit eftir með hauslausa tönn með svo hvössum brúnum að vinstri hliðin á tungunni er farinn að minnka.
Síðan var minnst á að gera við endajaxlinn minn, sem tannsi vildi fyrst taka úr. Nú kannast tannsi ekkert við það og vil lappa upp á þann fannt.

Ég verð að segja NEI. Ef það er eitthvað meira átt við kjaftinn á mér, verður það að verða mér í hag, ekki bara fyrir tannsa til að búa til viðskipti fyrir sig.

Ef reikningurinn fyrir þessa tönn verður of hár, skipti ég um tannlækni.


Ég er ekki nógu harður. Allt of hlédrægur og rólegur.

Hálfgerð skómotta fyrir tannlækna... Þetta er vandamál, og ég þarf að laga það.






Powered by ScribeFire.

Wednesday, June 20, 2007

Polymental

Nýja hljómsveitin mín er núna komin með nafn. Polymental varð fyrir valinu að þessu sinni, en ef við finnum eitthvað betra bráðlega mun það fá að fjúka.

Við erum að spila á classic rock, 21 júni kl 21:00 og munum spila 5 lög af þessum 10 sem við höfum í pokahorninu. Algjör óþarfi að spila of lengi þegar við erum rétta að skríða úr skelinni. Við tókum upp trommurnar hjá Óla úr Celestine og var það allt tekið upp í einni töku fyrir utan eitt lag þar sem við spiluðum það of hægt. Verðum að muna eftir því næsta að vera með metronome svo að við séum ekki að eyða tímanum í mistök og vitleysur.

Ég og Kjartan erum að taka upp gítarana núna, ég er búin að renna yfir þetta einu sinni, en mig langar að taka þetta allt upp aftur þar sem ég var nú ekki nógu ánægður með mínar upptökur. Ekkert stress í gangi, þetta er allt á okkar tíma, ekkert stúdíó að aðstoða okkur með þann hluta, við erum með Pro Tools og góða hljóðnema þannig við fáum gott hljóð úr græjunum okkar og erum færir á okkar hljóðfæri.



Metall





Powered by ScribeFire.

Sunday, June 17, 2007

Krít

Þetta var í fyrsta skiptið sem ég fer í launað sumarfrí. Ég hef hingað til annað hvort verið í skóla á veturna eða verið of stutt í vinnunni til að vinna mér inn sumarfrí.



Mestum tímanum var eytt í að rölta um Chania og sóla sig. Það er álíka gaman að sóla sig og að horfa á málningu þorna. Maður bara bíður eftir því að verða brúnn og sætur.



Laugardagur:

Mætt á hótelið og barinn skoðaður.

Sunnudagur:

Rölt um miðborgina, étið, sólað sig.

Mánudagur:

Rölt um bæinn, farið á krossmarkaðinn til að versla meðan maður reynir að verða ekki fyrir dúfnaskít.

Þriðjudagur:

Siglt til Santoríní, skoðað smáþorpin sem hanga utan á klettunum.

Miðvikudagur:

Hangið við sundlaugina, sólað sig og síðan farið á ströndina.

Fimmtudagur:

Meiri sól. Éta.

Föstudagur:

Farið í vatnsrennibrautir, og í afmælisveislu Gumma. Éta.

Laugardagur:

Undirbúið ferðina heim.



Það var mikið gert af því að éta og sóla sig. Síðan hitti maður líka nokkuð af mjög skemmtilegu fólki.



Þetta var nú bara frekar vel heppnað.



Tata







Powered by ScribeFire.

Saturday, January 20, 2007

Ég eyði mestallri vikunni í það að forrita, og oft kemur það fyrir að þetta verður helvíti skemmtilegt. Ég er að smíða debugger fyrir Python, sem verður að virka með stackless python, sem gerir það nú ekkert svo erfiðara. Ég hélt fyrst að þetta mundi nú vera hið versta mál, og þvílíkt vesen að reyna að þrepa sig í gegn um kóða sem er skiptur upp í macro þræði og að ég þyrfti að halda utan um allt 'context switch' til að fylgjast með staflanum og hvað í rauninni væri að gerast. En það var allt út af engu. Gagnagrindurnar í Python gera manni kleyft að smíða sinna sinn eigin Python aflúsara með litlu 250 lína Python forriti, sem hefur þá þessar algengustu aðferðir til að þrepa í gegnum forritið; Next, Step, Continue, Break. Síðan er bara að gefa notendanum skel sem hefur aðgang að öllum breytum í þeim ramma sem aflúsarinn er í þá stundina. METALL.



Þessi hljómsveit sem ég er að spila í núna er frekar fámenn en góðmenn. Trommarinn er úr hljómsveitinni Momentum og hinn gítarleikarinn er úr hljómsveitinni I Adapt, og vonandi erum við að fá fleiri menn í þetta til að gera þetta skothelt. Það er leikið sér með allan fjandan, thrash, jazz, metal, progressive, blast-beats og drum bass og allt er þetta soðið saman með grípandi gítarriffum og vænni keyrslu. Tilraunastarfsemi og klár hljóðfæraleikur gerir þetta að keppnis afurð og ég hef þessi tvö 'sýnishorn' sem ég get nú deilt með þeim sem lesa þetta. Það er bara Ég og trommarinn hann Stjáni sem eru að spila á þessu og var þetta tekið upp með einum hljóðnema á æfingu hjá okkur, þannig látið ykkur ekki bregða þótt það vanti aðeins upp á hljómgæðin.



Prufa 1

Prufa 2



En þangað til næst.



Ta ta





powered by performancing firefox

Monday, January 01, 2007

Ég er langt frá því að vera duglegur að blogga. En...

Ég er langt frá því að vera duglegur að blogga, en þar sem það eru liðnir 6 mánuðir, kanski hefur maður þá eitthvað til að segja frá. Ég er ekki lengur að spila með hljómsveitinni Hostile og farinn að spila kræfari tónlist með tveimur öðrum hljóðfæraleikurum og er líka þetta óendanlega gaman að spila með þeim. Fyrir utan það, þá er ég bara búin að vera að vinna eins og vitlaus fyrir CCP og að spila á gítarinn með svipuðum ákafa, þannig að lítið annað en það hefur komist að síðustu sex mánuði. Annars þarf ég að fara að leita mér að íbúð þar sem ég fæ líklega ekki að vera í íbúðinni í stúdentagörðunum mikið lengur en fram í Mars. Því ég er ekki búin að skila af mér þeim sex einingum sem mér er skilt að skila af mér á haustönn til að halda íbúðinni. Hvað á maður að gera? Kaupa eða Leigja? Ég held að maður verður að kaupa þar sem leiguverðið í bænum er hærra en afborganirnar af þessu skelfilega dýra húsnæði sem finnst hérna í borginni. Nú er bara að finna einhverja 3 herbergja, 70 - 90fm íbúð á viðráðanlegu verði á góðum stað hérna í bænum.





powered by performancing firefox